Ferill 513. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 588  —  513. mál.




Fyrirspurn


til utanríkisráðherra um mannúðaraðstoð til Palestínu og aðgerðir Íslands til að þrýsta á um vopnahlé.

Frá Rögnu Sigurðardóttur.


     1.      Hve mikið fjármagn hefur runnið til mannúðaraðstoðar í Palestínu frá árinu 2011, sundurliðað eftir árum? Óskað er upplýsinga um skiptingu fjármagns eftir málaflokkum og svæðum, jafnt sjálfsstjórnarsvæðum sem hernumdum svæðum. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort fjármagn renni milliliðalaust til stjórnvalda í Palestínu eða til alþjóðlegra stofnana eða mannúðarsamtaka á svæðinu.
     2.      Hefur ráðherra beitt sér, með samtali við sendiherra Ísraels eða aðra fulltrúa Ísraels, til að þrýsta á um að án tafar „skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara“, eins og segir í ályktun Alþingis sem samþykkt var samhljóða 9. nóvember sl.? Ef svo er, hvenær, hvernig og á hvaða vettvangi?
     3.      Hefur ráðherra átt samtal við utanríkisráðherra annarra ríkja um aðgerðir, svo sem þvingunaraðgerðir, sem hægt væri að ráðast í gagnvart Ísrael, í þeim tilgangi að þrýsta á um vopnahlé og stöðva allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og Alþingi hefur fordæmt?


Skriflegt svar óskast.